miðvikudagur, 15. febrúar 2017

Bútasaumur

Ég saumaði þennan litla dúk í vikunni sem leið.
Hugmyndina fékk ég á netinu, trúlega frá Kathleen Tracy, sem saumar mikið af litlum bútasaumsstykkjum, eða "small quilts".
Ég saumaði með pappírssaum, eins og ég geri næstum alltaf.
Dúkinn teiknaði ég í EQ7 forritinu, sem ég er búin að eiga í mörg ár og nota alltaf, nema ef ég fer nákvæmlega eftir uppskrift einhvers annars.

föstudagur, 3. febrúar 2017

Kjólar og sokkar

Dúkkuföt á Baby Born dúkkur ömmustelpnanna minna, tvennt af öllu eins og venjulega, en þær eru bræðradætur, fæddar með þriggja vikna millibili, nú orðnar eins og hálfs árs.

Ég hef prjónað þessi föt áður og sett færslu um það á bloggið, undir flokknum Dúkkuföt.

Uppskriftina að kjólnum fann ég í gömlu Hendes verden blaði, en hún er líka í Dúkkublaði Tinnu frá 2010.

Sokkauppskriftina fann ég á netinu fyrir löngu, er búin að gleyma hvar.

Í fötin notaði ég afganga af baby garni.

fimmtudagur, 26. janúar 2017

Dúkkuteppi

Litlu stelpurnar mínar vantaði teppi fyrir dúkkurnar sem þær fengu í jólagjöf frá ömmu og afa.
Teppin heklaði ég úr afgöngum af bómullargarni, og hafði þetta munstur til hliðsjónar.

miðvikudagur, 25. janúar 2017

Glóð

Húfuna Glóð gerði ég á báðar ömmustelpurnar fyrir nokkrum mánuðum, og eru þær mikið notaðar.
Uppskriftin er frá Litlu prjónabúðinni og Osprey garnið líka.
Dúskarnir voru keyptir í Freistingasjoppunni á Selfossi og eru festir með tölu innan í húfunum.

þriðjudagur, 24. janúar 2017

Húfan Kertalogi

Húfuna Kertaloga prjónaði ég með gleði á aðra tengdadótturina eftir pöntun. Það er svo gaman að prjóna þessa húfu. Ég gerði styttri útgáfuna í þetta sinn, hef áður gert hærri húfuna. 
Dúskurinn er úr kanínuskinni og festur með tölu innan á.
Uppskriftin fæst í Litlu prjónabúðinni og Osprey garnið sömuleiðis, en dúskurinn er keyptur í Rokku í Fjarðarkaupum.

þriðjudagur, 27. desember 2016

Peysur á litlu dömurnar

 Litlu ömmustelpurnar mínar stækka, og þá þarf að prjóna nýjar flíkur.
Uppskriftin að gráu og bleiku peysunun er úr Klompelompe 2, og garnið í þær er keypt í Gallery Spuna, Drops Baby Merino.

Svo pantaði önnur mamman hvíta sparipeysu. Hún er prjónuð úr Lanett, keyptu í Rokku í Fjarðarkaupum.
Hvítu peysuna prjónaði ég eftir hugmyndum héðan og þaðan, og skeljamunstrið fann ég í Prjónabiblíunni.

mánudagur, 12. desember 2016

Lítil veggmynd

Ég fékk að láni bók á bókasafninu í Hafnarfirði sem heitir Here comes winter eftir Jeanne Large og Shelley Wicks, og sá meðal annars þessa litlu jólalegu vetrarmynd. Ég skellti mér í að sauma hana, líka til að æfa mig á nýju saumavélina mína, sem ég keypti í haust. Ég hengdi hana upp sem jólamynd en kannski fær hún að hanga aðeins áfram sem vetrarmynd.

föstudagur, 11. nóvember 2016

Bionic Gear Bag 2

Þá er ég búin að sauma tösku handa eiginmanninum, eins og ég sagði frá í síðustu færslu.

Ég var mikið fljótari núna, og valdi litina með hann í huga, hafði þá dálítið dempaða og dökka.

þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Bionic Gear Bag

Sniðið af þessari tösku keypti ég fyrir mörgum mánuðum. Leiðbeiningarnar eru á mörgum blaðsíðum, svo mér óx í augum að sauma hana. Tók mér góðan tíma, og hér er hún.
Ég er strax byrjuð á annarri því eiginmaðurinn pantaði eina til að nota á ferðalögum undir snúrur, græjur, lesbrettið og þess háttar.
Efnin í ytra byrðinu keypti ég í Edinborg fyrir fimm árum, komin tími til að nota þau. Þetta var pakki með 5" bútum frá Moda.
Sniðið fæst á craftsy.com.