Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 20. apríl 2017

Refasokkar

Refasokkar á ömmustelpurnar (næstum) þrjár. 
Stærri sokkarnir eru á dömurnar mínar sem verða tveggja ára í sumar, og þeir litlu eru á þá þriðju sem fæðist eftir nokkra daga.
Þetta er það fyrsta sem ég prjóna í þríriti. Hingað til hef ég prjónað tvennt af öllu.
Uppskriftin er hér.

miðvikudagur, 12. apríl 2017

Lítið veggteppi

Ég saumaði þetta litla teppi fyrir nokkru síðan.

Hugmyndin er af síðu Kathleen Tracy. Hún gerir svo mikið af fallegum smáteppum. 

Að þessu sinni notaði ég ekki pappírssaum, heldur sneið allt fyrst.

laugardagur, 25. mars 2017

Innkaupapokar

Þegar við fluttum í húsið okkar fyrir rúmum fimm árum, héngu bláar, þykkar gardínur fyrir svefnherbergisglugganum. Ég setti þær upp á háaloft og geymdi, því mér fannst efnið tilvalið í tuðrur.
Nú lét ég loksins verða af því að sauma þær.
Ég hafði sniðið mjög einfalt, og renndi þeim gegnum overlockvélina.
Góðar til að grípa og setja í veskið þegar maður fer úr húsi.

fimmtudagur, 23. mars 2017

Dúkkubleyjur

Þessar bleyjur eru á Baby Born dúkkur ömmustelpnanna minna.
Sniðið er gefins á þessu flotta dúkkubloggi.
Bloggið er líka í tengli hér til hliðar á mínu bloggi: Min dukkeverden.
Ég notaði bútasaumsefni og venjulegt bómullarvatt á milli.


þriðjudagur, 14. mars 2017

Útprjónaðir vettlingar

Uppskriftina af þessum vettlingum fann ég í jólablaði Húsfreyjunnar 2016.
Það var alveg kominn tími til að rifja upp tvíbanda vettlingaprjón.
Uppskriftin moraði reyndar í villum, en þetta hafðist.
Ég notaði Fabel frá Drops.

laugardagur, 25. febrúar 2017

Straubretti

Í morgun bjó ég mér til straubretti til að hafa á sníðaborðinu.
Bóndinn var fyrir löngu búinn að saga út MDF plötu handa mér, 50x55 cm að stærð.
Ég festi fyrst tvöfalt lag af bómullarvatti á plötuna með heftibyssu. Síðan festi ég efni yfir, sem er sérstaklega ætlað til að strauja á, en það má nota hvaða bómullarefni sem er.
Ég hef verið með stórar straumottur á borðinu í mörg ár, sem ég keypti frá USA, en þær þvældust oft fyrir mér, og eru reyndar orðnar úr sér gengnar.
Hlakka til að nota þetta.

fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Saumavélarhlíf

Ný saumavél bættist í saumavélafjölskylduna í haust. Það er reyndar mynd af henni í síðustu færslu, Husqvarna Sapphire 965Q.
Kannski geri ég færslu um vélarnar mínar við tækifæri.
Ég breiði alltaf yfir vélarnar, svo ekki var um annað að ræða en að sauma hlíf.
Ég get snúið hlífinni, og þá lítur hún svona út.

Hringmunstrin eru quiltmunstur úr EQ7 forritinu mínu. Ég prentaði þau út og dró upp á þunnan pappír sem ég saumaði í gegnum á efnið.
Vélin getur gert breið munstur, svo ég varð að prófa það.
Hugsunin með að hafa ásettan kant neðst var að auvelt væri að brjóta inn af kantinum þegar framlengingarborðið væri á vélinni, eða þegar hún er felld niður í borð.
Munstruðu efnin eru frá Storkinum, einhver blanda af Kaffe Fassett og Amy Butler efnum, held ég.

miðvikudagur, 15. febrúar 2017

Bútasaumur

Ég saumaði þennan litla dúk í vikunni sem leið.
Hugmyndina fékk ég á netinu, trúlega frá Kathleen Tracy, sem saumar mikið af litlum bútasaumsstykkjum, eða "small quilts".
Ég saumaði með pappírssaum, eins og ég geri næstum alltaf.
Dúkinn teiknaði ég í EQ7 forritinu, sem ég er búin að eiga í mörg ár og nota alltaf, nema ef ég fer nákvæmlega eftir uppskrift einhvers annars.

föstudagur, 3. febrúar 2017

Kjólar og sokkar

Dúkkuföt á Baby Born dúkkur ömmustelpnanna minna, tvennt af öllu eins og venjulega, en þær eru bræðradætur, fæddar með þriggja vikna millibili, nú orðnar eins og hálfs árs.
Ég hef prjónað þessi föt áður og sett færslu um það á bloggið, undir flokknum Dúkkuföt.
Uppskriftina að kjólnum fann ég í gömlu Hendes verden blaði, en hún er líka í Dúkkublaði Tinnu frá 2010.
Sokkauppskriftina fann ég á netinu fyrir löngu, er búin að gleyma hvar.
Í fötin notaði ég afganga af baby garni.