Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 14. febrúar 2018

Föt á Baby Born

 
Ég tók mig til í vetur og saumaði nokkrar spjarir á dúkkur eldri ömmustelpnanna tveggja.
 
Ég var svolítið ánægð með mig þegar ég gat notað eingöngu afganga og gömul föt af sjálfri mér í verkið.
 
Sniðin eru héðan og þaðan, ég hef sankað þeim að mér í gegnum árin.
 
Allt tvöfalt, eins og venjulega😊

mánudagur, 29. janúar 2018

Hringskeri


Ég fékk svo skemmtilega jólagjöf frá syni mínum og fjölskyldu hans.
Ég vissi ekki að mig vantaði þetta af því að ég vissi ekki að það væri til, en þetta er hringskeri fyrir bútasaum.
Í gegnum árin hef ég notast við mismunandi diska og dósir til að gera hringi, en þessa græju er hægt að stilla nákvæmlega fyrir rétta stærð af hring.

Svo fylgdi með stika fyrir "Dresden Plate", en það er ein af mínum uppáhalds blokkum.

Upp úr kassanum kom líka pakki af Steam-A-Seam sem alltaf kemur sér vel að eiga í applíkeringuna.
Allt var þetta pantað frá Massdrop.

Ég prófaði græjurnar strax og gerði púða. 
Hringskerinn virkaði mjög vel og ég er svakalega ánægð með hann.

mánudagur, 15. janúar 2018

Heimferðarsett


Þetta heimferðarsett prjónaði ég á lítinn pilt sem von er á í heiminn í febrúar.

Uppskriftirnar eru að mestu úr Heimferðarsettablaði Prjónajónu, en hjálmhúfan er úr Babystrikk på pinde 3.
Svo bætti ég við lestarsokkum.

Garnið er Lanett frá Sandnes, og valdi móðirin þessa fallegu liti saman.

þriðjudagur, 9. janúar 2018

Secret Path Shawl


Ég sá alveg æðislega fallegt garn í Fjarðarkaupum í vetur, og varð að kaupa það. 
Litaúrvalið var mikið, en ég valdi þessa liti að lokum. Það heitir Scheepjes Whirl, og eru um 1000 metrar í dokkunni.

laugardagur, 23. desember 2017

Lille vinterkongle-jakke og Gull-lue


Ég held áfram að prjóna upp úr Klompelompebókunum, og nú úr Strikk året rundt.
 Þessi peysa fannst mér svo falleg af því hún hafði bara einn munsturlit.
Hún er prjónuð á yngstu ömmustelpuna, sem er tæplega 8 mánaða núna.


Húfan er líka úr bókinni, einföld og falleg.


Uppskriftin af treflinum er hins vegar úr heimferðasettablaði PrjónaJónu.

Í húfunni er Sandnes garn merinoull, en í peysunni og treflinum er Klompelompe tynn merinoull.

föstudagur, 22. desember 2017

Hálskragar


Prjónaði svona hálskraga á báðar tveggja ára ömmustelpurnar mínar, og þeir passa ljómandi vel.

Ég notaði sama garn og í húfunum í færslunni á undan, og sama lit, en myndin af húfunum kom allt öðruvísi út. 
Þetta er rétti liturinn.

laugardagur, 9. desember 2017

Lítill

Þetta er húfan Lítill úr Leikskólafötum. 
Ég prjónaði úr Drops Merino extra fine. 
Liturinn er miklu fjólublárri en á myndinni. Húfan passar sérlega vel á litla kolla.

mánudagur, 4. desember 2017

Klukka í saumaherbergið


Ég keypti pakka með efni í þessa klukku í Hannyrðabúðinni á Selfossi fyrir u.þ.b. þremur árum.

Hún var búin að liggja hjá mér að mestu búin í dálítinn tíma, vantaði meira af einum lit og svo finnst mér alltaf svo leiðinlegt að sauma útlínurnar í krosssaumi. En ég fann garnið sem vantaði, og þrælaði mér í afturstinginn.

Svo var hún römmuð inn í Tempó í Kópavogi og hangir nú á vegg í saumaherberginu.

laugardagur, 18. nóvember 2017

Verkefnatöskur


Nú sér maður út um allt á netinu að prjónafólk saumar sér verkefnatöskur. Þá er hver taska notuð undir eitt verkefni, og eru þá jafn margar töskur í gangi og verkefnin eru mörg.

Ég hef nú alltaf látið mér nægja körfur, en þetta er miklu þægilegra svona.

Ég grísaði nú bara á stærðina á þeirri fyrri, en var svo heppin að venjulegt prjónablað kemst auðveldlega fyrir líka.

Þá saumaði ég aðra í sömu stærð en breytti hlutföllunum á efnunum aðeins og setti blúndu.