Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 28. febrúar 2010

Sumarskakki og húfa

Hér er sumt af því sem ég hef verið að gera undanfarið.
Þetta sjal er úr bókinni "Prjónaperlur". Það er kallað sumarskakki og er prjónað úr eingirnisafgöngum. Svo gerði ég þessa húfu. Ég sá hana á síðunni hjá Strikkemor(o), þar sem hún sagðist hafa notað Perfect garn frá Sandnes.
Ég á töluvert af því garni, og gerði mér eina svarta. Þetta er mjög góð húfuuppskrift, og gaman að prjóna hana.
Uppskriftin er á Ravelry.

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Diskamottur

Nýlega lauk ég við að sauma þessar diskamottur. Þær eiga að vera svona hversdags á eldhúsborðið. Ég var ákveðin í að hafa þær úr köflóttu eingöngu. Ég sá einu sinni þannig diskamottur í Virku. Þær voru reyndar með húsi í miðjunni, og úr mjög samlitum og dökkum efnum.
Ég prófaði þess vegna að setja hús í miðjuna þegar ég bjó mottuna til í EQ6. Svo fór ég að hugsa að ég væri svo oft að sauma hús, enda eru hús, átta arma stjörnur og fljúgandi gæsir uppáhaldsmótívin mín.
En ég held líka mikið upp á fimm arma stjörnur, svo ég ákvað að prófa það núna.

fimmtudagur, 4. febrúar 2010

Enn ein lopapeysan

Hvað þarf ein kona að eiga margar lopapeysur? Ég held að nú sé komið nóg, a.m.k. í bili.
Ég prjónaði bláa peysu fyrir nokkru með þessu munstri, en hún varð of stór, og mamma fékk hana. Nú reyndi ég aftur, og minnkaði peysuna um 30 lykkjur, og nú smellpassar hún.
Peysan er prjónuð úr einföldum lopa og einbandi á prjóna nr. 4,5. Tölurnar eru skelplötutölur.